Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að tímalaun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði uppfærð á milli ára um níu prósent í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands, var felld á fundi borgarráðs í dag.
„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að laun 13-16 ára unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði leiðrétt. Tillagan fól í sér að tímalaun unglinganna hækkuðu um 9% á milli ára eða í samræmi við launavísitölu. Slík launafrysting er sem blaut tuska í andlit yngsta starfsfólks Reykjavíkurborgar, sem sinnir mikilvægum verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds í borginni,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna þess.
Bjóst við að unglingarnir fengju líka hækkun
Kjartan Magnússon, borgarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við fréttastofu að hann hefði haldið að nemendur vinnuskólans fengju einhverja vísitöluhækkun vegna mikillar verðbólgu, líkt og allir starfsmenn Reykjavíkurborgar.
„En þá er þessi hópur tekinn út og verður fyrir launafrystingu milli ára,“ segir hann.
Þá segir hann að um sé að ræða þrjú þúsund unglinga sem sinni mjög mikilvægum störfum við umhirðu og fegrun og hreinsun í borginni.
„Svo er líka leiðinlegt að koma fram við unglinga með þessum hætti, sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.“
Óveruleg útgjaldaaukning
Kjartan segir að launaleiðrétting fyrir unglingana sé grundvallaratriði, sem myndi auk þess valda óverulegum útgjaldaauka fyrir borgarsjóð.
Um þrjú þúsund unglingar séu nú skráðir til starfa í Vinnuskólanum og áætlað sé að laun þeirra nemi samtals 281 milljón króna, miðað við óbreytt kaup á milli ára. Áætluð launaleiðrétting vegna verðbólgu ofan á þau laun sé talin kosta tæpar þrjátíu milljónir króna til viðbótar.