Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að gríðarleg mengun sé nú á svæðinu. Það sé ekki síst vegna gróðurelda en að sögn Elísabetar fór fram víðtækt starf slökkviliðs á svæðinu í gær til þess að stemma stigu við eldunum.
„Reykurinn liggur gríðarlega lágt yfir svæðinu en á sama tíma hefur virknin verið stöðug í gosinu og er svipuð eins og hún hefur verið undanfarna daga. Það hefur ekki breyst í nótt.“
Gossvæðinu var lokað almenningi í nótt og mun hún standa fram til laugardags hið minnsta. Þá verður fundur almannavarna, lögreglu og annarra viðbragðsaðila þar sem næstu skref verða ákveðin. Áður hafði töluverður fjöldi gesta hætt sér inn á skilgreint hættusvæði og hunsað fyrirmæli viðbragðsaðila, að því er fram kom í tilkynningu.