Innlent

Líf­tryggingar halda en slysa­bætur gætu skerst í glanna­skap við gosið

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Vítavert gáleysi getur skert slysatryggingar.
Vítavert gáleysi getur skert slysatryggingar. Vísir/Vilhelm

Glannaskapur við gosstöðvarnar ógildir ekki líftryggingar fólks en möguleiki er á því að slysabætur skerðist vegna vítaverðs gáleysis. Borið hefur á því að fólk fylgi ekki fyrirmælum lögreglu og setji sig í hættu.

„Það er ekki verið að loka að ástæðulausu og það er mjög mikilvægt að fólk virði lokanir,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS. 

Sigrún A. Þorsteinsdóttir sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS segir mikilvægt að fólk virði lokanir.

„Það eru alltaf einhverjir sem telja sig vita betur og að aðgerðir eins og þessar séu forræðishyggja. En fólk áttar sig oft ekki á til dæmis vegalengdinni og hvernig andrúmsloftið er þarna,“ segir Sigrún.

Lögregla hefur lokað gosstöðvunum við Litla Hrút vegna slæms veðurs og mikils mosabruna. En við mosabrunann myndast gróðureldar sem eru verri fyrir líkamann en kvikugasið, sem er þó slæmt.

Sumir fylgja hins vegar ekki fyrirmælunum og reyna að komast að gosstöðvunum. Þá eru einnig sumir sem hafa beinlínis sett sig í hættu við að fara of nálægt gígnum og jafn vel ganga á nýstorknuðu og ótraustu hrauni.

„Sum­ir eru með betri líf­trygg­ingu en aðrir!“ skrif­aði læknirinn Tóm­as Guðbjarts­son í háði á Facebook síðu sinni og birti mynd af tveimur ferðamönnum sem gengið höfðu upp á hraunið.

Sterk líftryggingarvernd

Sigrún segir hins vegar að líftryggingaverndin sé mjög sterk. Glannaskapur sem þessi eða jafn vel viljandi sjálfsvíg ógilda hana ekki né draga úr henni.

,,Ef þú deyrð fá aðstandendur greitt úr þinni líftryggingu sama hver dánarorsök er nema viðkomandi hafi fallið fyrir eign hendi innan árs frá því að tryggingin var tekin,“ segir Sigrún.

Annað geti hins vegar gilt um slysabætur. Almennt séð er tryggingarverndin sterk en glannaskapur getur haft áhrif við ákvörðun slysabóta.

„Það er möguleiki á að skerða slysabætur út frá vítaverðu gáleysi,“ segir Sigrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×