Handbolti

Janus Daði mætti ekki á æfingu Kolstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði Smárason í leik með íslenska landsliðinu á HM í handbolta í janúar.
Janus Daði Smárason í leik með íslenska landsliðinu á HM í handbolta í janúar. vísir/vilhelm

Samkvæmt upplýsingum TV 2 í Noregi mætti Janus Daði Smárason ekki á fyrstu æfingu undirbúningstímabilsins hjá Kolstad.

Norsku meistararnir eiga í miklum fjárhagserfiðleikum og leikmenn og starfsfólk Kolstad hafa verið beðin um að taka á sig launalækkun.

Tveir íslenskir landsliðsmenn leika með Kolstad, Sigvaldi Guðjónsson og Janus Daði Smárason. Sá síðarnefndi hefur verið orðaður við Evrópumeistara Magdeburg.

Í umfjöllun TV 2 um ástandið hjá Kolstad segir að Janus Daði hafi ekki mætt í læknisskoðun þegar undirbúningstímabilið hófst í dag.

„Þetta er ferli milli Janusar og félagsins. Við sitjum hér og erum svolítið spenntir að sjá hverjir mæta. Hingað til hefur mætingin verið góð,“ sagði Stian Gomo Nilsen sem er í þjálfarateymi Kolstad. Hann vísaði annars á Janus eða Jostein Sivertsen, eiganda Kolstad.

Janus gekk í raðir Kolstad í fyrra og varð þrefaldur meistari með liðinu á síðasta tímabili. Hann var valinn í úrvalslið norsku úrvalsdeildarinnar.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, aðalleikstjórnandi Magdeburg, er meiddur og verður varla meira með liðinu á árinu og því vantar Evrópumeistarana staðgengil fyrir hann. Þeir hafa því horft til landa hans og félaga í íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×