Handbolti

Janus Daði til Magdeburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði Smárason hefur söðlað um og gengið til liðs við Evrópumeistara Magdeburg.
Janus Daði Smárason hefur söðlað um og gengið til liðs við Evrópumeistara Magdeburg. VÍSIR/VILHELM

Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handbolta, er genginn í raðir Evrópumeistara Magdeburg frá Kolstad í Noregi. Hann skrifaði undir eins árs samning við þýska félagið.

Kolstad á í miklum fjárhagsvandræðum og leikmenn og starfsfólk félagsins var beðið um að taka á sig launalækkun. Undirbúningstímabilið hófst í gær en Janus mætti þá ekki til æfinga.

Hann hefur nú samið við Magdeburg sem vann Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili. Þar hittir hann fyrir samherja sína í íslenska landsliðinu, Ómar Inga Magnússon og Gísla Þorgeir Kristjánsson.

Sá síðarnefndi er meiddur og spilar væntanlega ekki meira með á árinu. Janus fær því það hlutverk að fylla skarð Gísla ásamt Svíanum Felix Claar og Norðmanninum Christian O'Sullivan.

Janus þekkir vel til í Þýskalandi en hann lék með Göppingen á árunum 2020-22. Hann gekk í raðir Kolstad í fyrra og varð þrefaldur meistari með liðinu á síðasta tímabili. Janus lék vel með Kolstad og var valinn í úrvalslið norsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×