Breiðablik sló í gær út Shamrock Rovers frá Írlandi og tryggði sér þar með einvígi gegn danska meistaraliðinu FCK. Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli þann 25. júlí en sá síðari þann 2. ágúst á Parken. Ljóst er að spilað verður við bestu aðstæður í Kaupmannahöfn en leikvangurinn glæsilegur og þá tilkynnti FCK að verið sé að skipta um gras á vellinum fyrir komandi tímabil.
Í tilkynningu FCK segir að eftir tónleika sumarsins sé kominn tími til að skipta um gras fyrir komandi tímabil. Hljómsveitirnar Depeche Mode og Coldplay spiluðu á Parken áður en Bruce Springsteen & The E Street Band mætti og trylltu lýðinn.
Þar sem grasið var orðið lúið eftir langt og strangt tímabil þá var kominn tími til að skipta um eftir að Danmerkurmeistaratitillinn fór á loft síðasta vor. FCK ákvað hins vegar að bíða þar sem fjöldi tónleika var framundan á vellinum yfir sumartímann og ljóst að grasið myndi koma illa undan því.
Efter sommerens vellykkede og velbesøgte koncerter bliver Parkens græs helt efter planen udskiftet i disse dage, så det er klar til vores første hjemmekamp den 2. august, kl. 20 mod Breidablik #fcklive https://t.co/DNymYPTzbH
— F.C. København (@FCKobenhavn) July 19, 2023
Nú er tónleikahaldi loks lokið og nýtt tímabil við það að hefjast í Danmörku. Því hefur verið ákveðið að skipta um gras og verður Breiðablik fyrsta liðið til að leika á vellinum eftir að nýtt gras verður tilbúið.