Innlent

Tveir kröftugir skjálftar í Bárðar­bungu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Bárðarbunga er hæsti punktur á norðvestanverðum Vatnajökli. Bárðarbunga er ein víðáttumesta eldstöð landsins.
Bárðarbunga er hæsti punktur á norðvestanverðum Vatnajökli. Bárðarbunga er ein víðáttumesta eldstöð landsins. Vísir/Vilhelm

Tveir kröftugir skjálftar mældust í Bárðarbungu skömmu fyrir miðnætti í gær.

Fyrri skjálftinn reið yfir 23:42 og var 3,4 að stærð en sá seinni reið yfir 23:55 og var 3,6 að stærð, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Nokkrir minni skjálftar fylgdu í kjölfarið en enginn órói hefur mælst á svæðinu.

Skjálftakort af Vatnajökli. Stjarnan táknar skjálfti sem eru yfir þrír að stærð en doppurnar skjálfta sem eru yfir einn að stærð.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að skjálftar af þessari stærð séu algengir í Bárðarbungu og að skjálftar af svipaðri stærð hafi mælst þar í byrjun júlí og júní.

Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við Rúv að skjálftar að stærðinni þrír og jafnvel upp í fjóra væru ekki óalgengir í Bárðarbungu. Þá sagði hún að ekkert bendi til þess að virkni þar sé að aukast.

Veðurstofunni bárust ekki neinar tilkynningar um að fólk hafi fundið fyrir skjálftunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×