Tilkynning um eldinn barst til slökkviliðs klukkan 04:30 í morgun og voru þrjár stöðvar sendar af stað. Þegar slökkviliðsmenn voru komnir á staðinn var töluverður eldur í íbúðinni.
Greint er frá því í færslu á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins að um klukkustund hafi tekið að reykræsta íbúðina. Reglulega kvikni eldar út frá rafhlaupahjólum í hleðslu.
Orðið töluvert tjón
„Það var nú grunur um að það væri ein manneskja þarna inni til að byrja með en hún hafði komist út á svalir og fékk aðstoð við að komast þaðan. Eldurinn kviknaði út frá rafhlaupahjóli sem var í hleðslu og það var töluverður eldur og mikill reykur í íbúðinni. Það gekk nokkuð greiðlega að slökkva eldinn og koma hlutunum út en það tók hátt í klukkustund að reykræsta íbúðina, stigagang og sameign,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu.
Hann segir hafa orðið töluvert tjón og varar fólk við því að hlaða rafhlaupahjólin á næturnar og nálægt hlutum sem geti borið eld.
„Þetta eru orðnir svolítið algengir brunar hjá okkur þessi rafhlaupahjól. Það er svo sem allt í lagi að hlaða þetta inni en reyna kannski að hafa ekki nálægt hlutum sem eiga auðvelt með að brenna og hafa þetta ekki í sambandi á nóttunni,“ segir Sigurjón.
Mælst sé til þess að fólk taki farartækin úr hleðslu á meðan það er sofandi eða enginn er heima.
„Þetta virðist bara ofhlaðast og ofhitna eða eitthvað í hleðslu og hefur kannski orðið fyrir einhverju hnjaski á hoppum og þá er þetta viðkvæmt fyrir því að fá svona mikla hleðslu og langa.“