„Þetta gengur allt mjög vel og miðasala er svakalega góð,“ segir Ásgeir Guðmundsson einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Innipúkans. „Það lítur út fyrir að það verði hrikalega góð stemning í Reykjavík eins og öll fyrri ár.“
Innipúkinn verður haldinn í 21. skiptið í ár. Ingólfsstræti verður lokað í þágu hátíðarinnar og fer dagskráin fram í Gamla bíó og á efri hæð skemmtistaðarins Röntgen. Meðal flytjenda eru Moses Hightower, GDRN, Skrattar, Sykur og Birnir.
„Þetta eru hátt í þrjátíu atriði sem koma fram. Það er gaman að fá loksins að sjá mörg af þessum böndum stíga á svið hér í Reykjavík þar sem tónleikahald hefur verið á undanhaldi,“ segir Ásgeir.
Rætt var við Ásgeir á síðasta ári á Ingólfsstræti:
Ákvörðun var tekin um að færa hátíðina á Ingólfsstræti fyrir fjórum árum.
„Við þurftum svo að aflýsa með dags fyrirvara 2020 og svo með viku fyrirvara 2021. Loksins náðum við að halda þetta þarna í fyrra. Það gekk svona svakalega vel þannig við ákváðum að gera það aftur. Enda er Gamla bíó eitt glæsilegasta tónleikahús landsins.“
Skilaboð Ásgeirs fyrir helgina eru skýr:
„Að skemmta sér vítt og breitt um þetta fallega land. Gera þjóð okkar og náttúru þann greiða að skemmta okkur fallega með bros á vör.“