Íris Ösp Símonardóttir er 35 ára gömul kona með einhverfu. Hún býr í þjónustukjarna í Njarðvík ásamt kettinum Garfield. Íris hefur fjölbreytt áhugamál og á til að mynda eitt flottasta bangsasafn landsins.
Það hefur verið draumur Írisar í mörg ár að heimsækja Disney World í Flórída.
„Útaf ég hef aldrei komið til Bandaríkjanna og mig langar svo að fara,” segir Íris og bætir við að hana langi til að hitta Mínu og Mikka mús og kaupa hluti frá Disney.
„Og hitta Elsu í Frozen. Svo fer ég kannski í dýragarð og á McDonalds. Mér finnst McDonalds svo gott,“ segir Íris.
En ferðalag til Bandaríkjanna kostar sitt og sérstaklega fyrir Írisi sem þarf að borga fyrir tvær fylgdarmanneskjur sem færu með henni. Hún brá á það ráð á dögunum að hefja sölu á armböndum sem hún perlar sjálf til að safna fyrir ferðinni.

Armböndin auglýsti hún á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
„Bara allir vildu kaupa armbönd af mér næstum. Líka ókunnugt fólk sem ég þekki ekki.”
Og heldurðu að þú náir að komast yfir þetta allt?
„Já, ég er svo dugleg. Starfsfólkið þar sem ég bý hjálpar mér líka.”
Annaði ekki eftirspurn og þurfti að loka fyrir pantanir tímabundið
Armböndin urðu svo vinsæl að Íris þurfti að loka tímabundið fyrir pantanir. Áhugasamir geta þó sent henni skilaboð á Facebook og pantað armband þrátt fyrir að það gæti verið svolítil bið.
Öll kvöld fara nú í armbandsgerð og Íris vonast til að geta safnað hratt og vel fyrir draumaferðinni.