Enski boltinn

Sann­kallaður Hollywood-endir hjá Hollywood-liðinu í Eng­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elliott Lee fagnar en hann sá til þess að Wrexham fékk stig í dag.
Elliott Lee fagnar en hann sá til þess að Wrexham fékk stig í dag. Twitter@Wrexham_AFC

Wrexham í ensku D-deildinni í knattspyrnu heldur áfram að vekja athygli en liðið skaust upp á sjónarsviðið þegar Ryan Reynolds og Rob McElhenney festu kaup á liðinu. Í dag gerði liðið 5-5 jafntefli við Swindon Town eftir að vera tveimur mörkum undir þegar venjulegum leiktíma var lokið.

Wrexham hefur ekki byrjað lífið í D-deildinni jafnvel og vonast var til. Liðið tapaði 3-5 á heimavelli fyrir MK Dons í 1. umferð, gerði 1-1 jafntefli við AFC Wimbledon í 2. umferð og vann svo loks Walsall 4-2 í þeirri þriðju.

Í dag var því fullkominn tími til að hamra járnið meðan það var heitt og vinna annan leikinn í röð, það virtist þó aldrei í myndinni.

Gestirnir komust yfir á 17. mínútu og tíu mínútum síðar var staðan orðin 0-2. Jake Bickerstaff minnkaði muninn í 1-2 en Swindon svaraði með tveimur mörkum og var 4-1 yfir í hálfleik. Phil Parkinson, þjálfari Wrexham, hefur eitthvað sagt við sína menn í hálfleik því Elliott Lee og James Jones minnkuðu muninn 3-4 í upphafi síðari hálfleiks.

Þegar tuttugu mínútur tæplega lifðu leiks skoruðu gestirnir fimmta mark sitt og voru 5-3 yfir þegar venjulegur leiktími rann sitt skeið. Það virtist stefna í annað 3-5 tap Wrexham á heimavelli en annað kom á daginn.

Jones skoraði sitt annað mark á 92. mínútu og gaf heimamönnum þannig líflínu. Hana greip Lee og jafnaði metin þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 5-5 í hreint út sagt ótrúlegum leik og eðlilega tjáðu eigendurnir sig strax og leik lauk.

„Útskýra fyrir Bandaríkjamönnum hvernig jafntefli er í raun sigur (Þáttur 3, þáttaröð 3),“ sagði McElhenney á Twitter-síðu sinni en reikna má með að leikur dagsins verði gerð góð skil í raunveruleikaþáttunum um liðið.

„Svo mikið hjarta #AldreiFaraSnemmaAfWrexhamLeik,“ sagði Reynolds einfaldlega á Twitter-síðu sinni.

Wrexham, sem setur stefnuna án efa á að komast upp um deild, er sem stendur með 5 stig í 15. sæti að loknum 4 leikjum. Gillingham trónir á toppi D-deildarinnar með 12 stig en MK Dons er í 2. sæti með 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×