Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar segir að ferð vísindamanna á vegum stofnunarinnar hafi heppnast vel. Dr. Melissa Anne Pfeffer og Dr. Michelle Parks fóru fyrir ferðinni.
Var markmiðið að gera athuganir, efla samskipti við landverði og aðra vísindamenn og mæla gas, safna sýnum og mæla hitastig og aðstoða við GPS og hallamælingar.
Fyrstu niðurstöður sýna engar breytingar á gasi eða vatni frá fyrri árum en verið er að greina sýnin betur, að því er segir í tilkynningunni. Þar segir að engar sjáanlegar breytingar séu á landslagi og mælingar á hitastig og sýrustigi bendi ekki til þess að breytingar hafa orðið á jarðhitavirkni í kringum Öskju og Víti.
Tilkynningin sem barst þann 12.ágúst um gufustrók sem sást við jaðar Bátshrauns hefur verið túlkaður sem ryk vegna grjóthruns úr bröttum hlíðum öskjunnar. Fimm GPS stöðvum hefur verið komið fyrir á víð og dreif um öskjuna og gerðar voru hallamælingar á hrauninu sem myndaðist í eldgosum árin 1961 og 1921.
Hallamælingarnar sýna engar breytingar á staðsetningu landrisins síðan mælingar voru gerðar í ágúst árið 2022, en það er í samræmi við gögn frá GPS stöðvum og InSAR myndum, að því er segir í tilkynningu.