Körfubolti

Dreymir um titla hjá nýju félagi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristinn Pálsson lék í Hollandi á síðasta tímabili en hefur fært sig aftur heim og nú til Vals.
Kristinn Pálsson lék í Hollandi á síðasta tímabili en hefur fært sig aftur heim og nú til Vals.

Kristinn Pálsson sem samdi við Val í gær segist vera spenntur fyrir komandi tímabili. Hann dreymir um að vinna loksins titil hér á landi.

Kristinn mun leika með Valsmönnum í Subway deildinni næstu tvö tímabil en þessi 26 ára framherji kemur til bikarmeistarana frá hollenska liðinu Aris Leeuwarden. Þar var hann með tólf stig og fimm fráköst að meðaltali í leik.

„Ég var búinn að vera bíða eftir boðum að utan í allt sumar og svo var sumarið að líða og ég ákvað með mínum nánustu að taka ákvörðun að vera heima og ég er bara mjög ánægður með það hvar ég hef lent,“ segir Kristinn í samtali við fréttastofu. Kristinn segist hafa talað við nokkuð lið áður en hann ákvað að semja við Val.

Á sínum ferli hefur Kristinn leikið með Grindavík, Marist háskólanum, Stella Azura á Ítalíu og uppeldisfélagi sínu Njarðvík, en af hverju Valur?

„Það er verið að byggja upp mikinn og góðan sigurkúltúr í Val og ég bara rosalega spenntur að taka þátt í því og vonandi get ég aðstoðað þá við að vinna nokkra titla. Ég hef ekki sjálfur náð að vinna titla í meistaraflokki og mun gera allt til að reyna ná því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×