Bæjarstjórn Árborgar greip til aðhaldsaðgerða eftir að skuldir sveitarfélagsins uxu svo hratt að greiðslufall var yfirvofandi. Tugum starfsmanna sveitarfélagsins var sagt upp fyrr á árinu. Þá hefur ýmis þjónusta verið skert.
Sundlaugar sveitarfélagsins komast ekki undan niðurskurðarhnífnum. Opnunartími Sundhallar Selfoss flesta virka daga styttist um hálftíma þegar vetraropnun tekur gildi á föstudag, 1. september. Á föstudögum verður opið til 19:00 í stað 21:30 áður.
Róttækari eru breytingarnar í Sundlaug Stokkseyrar. Laugin er nú aðeins opin þrjá daga vikunnar eftir að vetraropnun tók gildi 21. ágúst. Henni verður svo lokað í fjóra mánuði frá 1. nóvember út febrúar. Frá 1. mars út maí verður hún opin þrjá daga en svo alla daga vikunnar frá 1. júní til 20. ágúst.

Fimmtíu milljóna króna sparnaður
Skertur opnunartími lauganna tveggja á að skila um fimmtíu milljóna króna sparnaði að ári, tuttugu milljónum vegna laugarinnar á Stokkseyri en þrjátíu milljónum á Selfossi, að því er kemur fram í grein Braga Bjarnasonar, formanns bæjarráðs Árborgar og oddvita Sjálfstæðisflokksins, á Vísi í dag.
„Það er alltaf erfitt þegar er farið í skerðingu á þjónustu. Það kemur misjafnlega við fólk þannig að maður skilur mjög vel að það séu misjafnar skoðanir,“ segir Bragi í samtali við Vísi.
Oddvitinn segist þó finna fyrir því að íbúar sveitarfélagsins skilji að ráðast þurfi í aðgerðir til þess að rétta af fjárhagslega stöðu þess.
„Við höfum auðvitað mismunandi skoðanir á því hvaða aðgerðir á að fara í og hvernig þær snerta okkur. Ég sýni því fullan skilning,“ segir hann.