Innlent

Dagskrá riðlast vegna seinkunar á flugi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ríkisstjórnin fundar á Egilsstöðum í dag. Þar kemur í ljós hvort hvalveiðar hefjast á morgun á ný eða ekki.
Ríkisstjórnin fundar á Egilsstöðum í dag. Þar kemur í ljós hvort hvalveiðar hefjast á morgun á ný eða ekki. Vísir/Vilhelm

Flugi Icelandair frá Reykjavík til Egilsstaða seinkaði um eina og hálfa klukkustund í morgun. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru um borð en sumarfundur ríkisstjórnarinnar fer fram á Egilsstöðum í dag. Reiknað er með því að matvælaráðherra tilkynni um ákvörðun sína varðandi hvalveiðar á fundinum.

Flugvélin átti að fara í loftið klukkan 7:30 frá Reykjavíkurflugvelli. Flugtaki seinkaði um vel á aðra klukkustund. Flugferðin til Egilsstaða tekur rétt innan við klukkustund. Dagskrá ríkisstjórnarinnar seinkar því um að lágmarki klukkustund með tilheyrandi riðlun á dagskrá.

Auk fundar ríkisstjórnarinnar á Egilsstöðum funda ráðherrarnir með sveitarstjórnarfólki á svæðinu. Þá verður því fagnað að 800. rampurinn á landinu hefur verið settur upp. Um er að ræða verkefni sem Haraldur Ingi Þorleifsson hefur verið í forsvari fyrir í samstarfi við ríkið og Reykjavíkurborg.

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, er á svæðinu og mun greina frá tíðindum á Egilsstöðum á öllum okkar miðlum.

Uppfært klukkan 10:08

Flugvélin lenti um tíuleytið á Egilsstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×