Sá grunaði var leiddur fyrir dómara á Austur-Jótlandi í dag. Hann er 24 ára gamall og var handtekinn á sunnudag eftir að stúlkan fannst látin í íbúð hans í Brabrand, úthverfi Árósa. Lögregla taldi aðstæður grunsamlegar og tilkynnti í dag að hann yrði ákærður fyrir manndráp, að sögn danska ríkisútvarpsins DR.
Hann er einnig ákærður fyrir dauða 23 ára gamallar konu sem fannst meðvitundarlaus í íbúð hans í júlí. Konan lést fjórum dögum síðar.
Dánarorsök kvennanna liggur ekki fyrir en lögregla telur að þær hafi látist af völdum einhvers konar lyfjaeitrunar. Upphaflega taldi lögregla ekki að nokkuð saknæmt hefði átt sér stað við dauða eldri konunnar.
„Þetta mál er nokkuð ólíkt mörgum öðrum málum þar sem við getum strax sagt að séu morðmál. Hér verði við að rannsaka dánarorsökina. Við teljum, og ég legg áherslu á að við teljum, að það hafi verið eitrun í báðum tilfellum,“ segir Flemming Nørgaard, aðstoðarlögreglustjóri á Austur-Jótlandi.