Laufey tekur þannig langt fram úr Lady Gaga og Tony Bennett, sem gáfu út plötuna Love for Sale fyrir tveimur árum síðan. Henni var streymt 1,1 milljón sinnum fyrsta sólarhringinn, samkvæmt X-síðu sem heldur utan um streymistölur á Spotify.
Laufey gaf út plötuna, sem ber nafnið Bewitched, á föstudag og hefur hún notið gríðarlegra vinsælda. Söngkonan hefur áður gefið út nokkrar smáskífur en Bewitched er hennar önnur plata í fullri lengd. Rúmar hundrað milljónir hafa streymt laginu From The Start af plötunni en Laufey gaf lagið út í maí á þessu ári.
Söngkonan hefur farið mikla sigurför um heiminn og stefnir hún á tónleikaferðalag um Norður Ameríku í haust. Ferðalagið heitir The Bewitched Tour eftir plötunni nýju. Laufey kemur til með að halda 29 tónleika í Bandaríkjunum og Kanada og uppselt er á alla tónleikana.