Áhafnir hvalbáta Hvals hf. veiddu tvær langreyðar hvor í gær og verður hvölunum landað í Hvalfirði í dag. Þar með hafa veiðst alls sjö langreyðar frá því hvalveiðarnar hófust að nýju í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er gert ráð fyrir að hvalbátarnir tveir sigli aftur út á miðin í dag.
Klukkan átta í morgun stóðu nokkrir aðgerðasinnar fyrir minningarathöfn við matvælaráðuneytið vegna þeirra hvala sem veiðst hafa undanfarna daga og til að mótmæla hvalveiðum.
„Ég stend hér fyrir hvalina. Ríkisstjórnin hefur ekki unnið vinnuna sína. Hún hefur leyft það sem greinilega er ólöglegt þegar kemur að lögum um dýravelferð. Hvalirnir þurfa okkur. Við þurfum að standa hér fyrir hvalina,“ segir Samuel Rostøl sem hefur verið í hungurverkfalli í tólf daga vegna ákvörðunar matvælaráðherra um að leyfa hvalveiðar.

Aðspurður hvort hann haldi að hungurverkfallið hafi áhrif segist hann ekki viss, en hann verði að vona að veiðarnar verði bannaðar.
„Ég veit það ekki en það eina sem ég get er að reyna mitt besta og einblína á það sem ég hef trú á. Ég er að minnsta kosti að tala við fjölmiðla í dag þannig þetta vekur einhverja athygli. Jafnvel þótt hungurverkfallið hafi engin áhrif þá trúi ég því að aðgerðir einstaklinga skipta máli til breytinga. Hvalirnir þurfa á okkur að halda.“
Aðgerðasinninn Micah Garen segir að samkvæmt myndefni sem náðist af hvölum sem veiddir voru fyrir helgi hafi tveir verið skotnir oftar en einu sinni sem að hans mati sé brot á nýrri reglugerð um veiðar á langreyðum sem matvælaráðherra setti áður en veiðarnar voru heimilaðar að nýju, en þar segir að ávallt skuli stefnt að því að dýr aflífist samstundis.
„Þetta er harmleikur sem hefði verið hægt að afstýra. Það er enn hægt að afstýra þessu. Tveir hvalir voru fyrir helgi skotnir ólöglega. Þeir voru með mörg skotsár, sem er á skjön við nýja reglugerð sem matvælaráðherra setti fyrir stuttu. Hvers vegna er þetta að gerast? Hvers vegna er Svandís ekki búin að stöðva þetta í ljósi þess að reglugerðin hefur þegar verið brotin?“