Eins og Vísir greindi frá í morgun var skemmtistaðnum B, sem er til húsa á Bankastræti 5 í Reykjavík, lokað á laugardagskvöld og Sverrir Einar leiddur út af staðnum í járnum.
Að sögn lögreglu var staðnum lokað vegna þess að of margir voru inni á honum og einhverjir gestir reyndust undir lögaldri.
Ágreiningur um vinnubrögð lögreglu
Í yfirlýsingu sem Sverrir Einar sendi Vísi nú í morgunsárið segir að umrætt kvöld hafi komið upp ágreiningur um vinnubrögð lögreglu á skemmtistað hans og Vestu Minkute, unnustu hans, í Bankastræti.
„Okkur aðstandendum staðarins fannst vanta að gætt væri hófs í vinnu lögreglu, en áður hafði þurft að leiðrétta misskilning lögreglumanns sem eftirlitið leiddi um kröfur þær sem gerðar eru til dyravarða á staðnum. Sami lögreglumaður lét færa undirritaðan niður á lögreglustöð þar sem málinu lauk og mér var sleppt,“ segir í yfirlýsingu.
Segir ekki rétt að of margir hafi verið inni
Sverrir Einar segir að lögreglan haldi því fram að of margir hafi verið inni á staðnum, en að talning með aðstoð öryggismyndavélakerfis staðarins sýni að svo hafi ekki verið.
„Ég hef sent Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu formlega kvörtun vegna framgöngu þessa lögreglumanns. Okkur er í mun að gott samstarf sé við lögreglu og hörmum að þarna hafi orðið misbrestur á því. Við vinnum að því að koma á samtali við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um vinnulag við eftirlit sem fullnægi þörfum lögreglu án þess að það sé um of íþyngjandi fyrir gesti og rekstur staðarins.“