Kynfræðslukennarinn Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir segir umræðuna á villigötum og að kennarar velji þá kafla til kennslu sem henti þroska hvers nemendahóps fyrir sig. Hún minnir á að kennarar séu fagfólk sem bjóði börnum upp á nám við hæfi í hverri námsgrein og að umrædd bók verði ekki kennd í heild sinni. Þóra segir framkomu nokkurra foreldra í umræðu um kynfræðslu hafa komið kennurum og ekki síst nemendum í opna skjöldu.
Hilja Guðmundsdóttir, höfundur kennsluleiðbeininga með kynfræðslubók, Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, kynfræðslukennari og Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, uppeldis- fíkni og fjölskyldufræðingur ræddu kynfræðslu barna í Pallborðinu.
„Því miður hefur umræðan farið gjörsamlega út um víðan völl og á svið sem tengjast kynfræðslu akkúrat ekki neitt og í alvarlegustu tilfellunum eru við að heyra af fólki sem ræðst inn í grunnskóla þar sem verið er að hóta kennurum, þar sem verið er að saka kennara um barnaníð og margt í þeim dúr og það er bara mjög alvarlegt. Það er mjög slæmt að fólk sem sinnir þessari vinnu að vera kennari og að kenna það sem okkur er uppálagt samkvæmt aðalnámskrá að sitja undir svona hótunum,“ segir þóra Geirlaug.
Hvað segja krakkarnir þegar foreldrar og fullorðnir ráðast inn með svona offorsi?
„Nú hef ég samband við ákveðinn hluta af nemendum á Íslandi og get ekki talað fyrir alla en mörg af þeim ungmennum sem ég hef rætt við eru bara svolítið sjokkeruð af því umræða ungs fólks í dag og síðustu misseri - og ef við spólum bara aftur um þrjátíu ár - þá er ungt fólk búið að kalla eftir kynfræðslu frá öruggum heimildum í áratugi og þau eru bara svolítið sjokkeruð líka að viðbrögðin séu á þennan hátt.“