Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra tilkynnti í upphafi mánaðar áform um sameiningu Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri.
Ekki hafa allir tekið jafn vel í þessa breytingu en kennarar skólanna, nemendur og fyrrverandi nemendur hafa margir lýst yfir mikilli andstöðu við þessi áform ráðherrans. Í gær var greint frá því í Speglinum á RÚV að áform ráðherrans væru líklega komin á ís. Hann hefði fundið auka fjármagn sem breytti verkefninu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samráðherra Ásmundar í ríkisstjórn, segist vonast til þess að ekkert verði af sameiningu skólanna.
„Ég var formaður skólafélagsins Hugins í MA og ég er ekki að sjá að þessi sameining sé skynsamleg, og er mótfallin því að sameina MA og VMA,“ segir ráðherrann.
Hann segist telja skólana of ólíka og með því að vera aðskildir sé meiri fjölbreytileiki í boði fyrir nemendur á Norðurlandi.
„Annar er áfangaskóli og hinn er með bekkjakerfi og þannig bjóða þeir upp á miklu meiri fjölbreytileika sem tveir skólar heldur en að þeim væri steypt saman í einn áfangaskóla. Fyrir nám á Norðurlandi, og raunar víðar, því það sækir fólk víðar af landinu. Þetta er þannig stórt landsbyggðarmál,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann segir ekki alla foreldra vilja senda börnin ein til Reykjavíkur og því sé þetta mikilvægt fyrir alla.
„Með því að hafa meiri fjölbreytileika út á landi eru meiri möguleikar að senda börnin á staði eins og Akureyri. Ég er ágætis dæmi um það sjálfur. Fæddur og uppalinn rétt hjá Borgarnesi og kaus að fara norður til að sækja mér menntun.“
Guðmundur segir Ásmundi vel kunnugt um hans skoðanir á þessu máli.
„Þetta var vissulega kynnt á ríkisstjórnarfundi, þessi áform. Ráðherrar ráða ákveðnum málum sjálfur og sem mennta- og barnamálaráðherra er þetta einmitt eitt slíkra mála sem hann ræður. Hann veit af afstöðu minni í málinu.“
Spurður hvort að hann telji að betur hefði getað verið staðið að þessu máli segist Guðmundur Ingi ekki geta svarað því en að hann vonist til þess að það þurfi ekki að koma til þessarar sameiningar.
„Ég held að hún sé ekki heillaskref í menntamálum á Íslandi og vonast til þess að það verði fundnar leiðir til þess að þetta þurfi ekki að gerast.“