Erlent

„Fasistinn“ og „kommún­istinn“ grófu stríðs­öxina

Agnar Már Másson skrifar
„Þú mátt alveg segja já,“ sagði Trump þegar Mamdani var sprður hvort honum þætti forsetinn vera fasisti. Tvímeningarnir hafa kallað hvor annan öllum illum nöfnum upp á síðkastið.
„Þú mátt alveg segja já,“ sagði Trump þegar Mamdani var sprður hvort honum þætti forsetinn vera fasisti. Tvímeningarnir hafa kallað hvor annan öllum illum nöfnum upp á síðkastið.

„Við vorum sammála um miklu meira en ég hafði hugsað mér,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi með Zohran Mamdani, tilvonandi borgarstjóra New York, í Hvíta húsinu í kvöld. Fundurinn var óvenjuvinalegur miðað við orðaskak tvímenninga síðustu misseri. Trump leyfði Mamdani að kalla sig fasista.

Forsetinn óskaði borgarstjóranum, sem er yfirlýstur sósíalisti, til hamingju með kjörið í borgarstjórakosningum í byrjun mánaðar en meðan kosningarnar stóðu yfir hafði Trump varað við því að Mamdani væri „kommúnisti“ og lýst stuðningi við andstæðing hans, Andrew Cuomo.

Enn fremur hafði Mamdani kallað Trump „fasista“. Það varð nokkuð vandræðaleg uppákoma þegar Demókratinn var spurður út í það hvort hann stæði við þessi ummæli.

„Þetta er allt í góðu, þú mátt alveg segja já,“ greip Trump fram í og Mamdani, sem stóð nokkuð prúður við hlið forsetans, kinkaði jánkandi kolli.

„Það er auðveldara en að reyna að útskýra það,“ bætti Trump við og hló. Sjá má orðaskiptin í myndskeiðinu hér að neðan.

Tvímenningarnir, sem báðir eru frá New York, virtust því afar vinalegir á fundinum og Trump sagði að það „gæti komið sumum íhaldsmönnum á óvart.“ Mamdani minntist á að einn af hverjum tíu Trump-kjósendum í New York hefði kosið sig sem borgarstjóra. Trump sagði enn fremur að ríkisstjórnin vildi hjálpa Mamdani, frekar en að gera honum erfiðara fyrir að ná markmiðum sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×