Háhyrningurinn hefur setið fastur í Gilsfirði í nokkra daga. Ekki er um sama dýr að ræða og festist í firðinum í síðustu viku og var bjargað á laugardag.
Fylgst hefur verið með dýrinu síðustu daga, en slæmt veður hefur torveldað aðgerðir til að koma því úr sjálfheldunni. Í gærmorgun bárust fréttir af því að dýrið hefði lagst á aðra hliðina.

„Það er vond staða til að vera í þegar maður er hvalur. Í fyrsta lagi þá lifir hann ekki lengi á hlið, og í öðru lagi þá getur vatn komist mjög fljótt í blástursopið,“ sagði Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir hjá MAST.
Bændur reistu dýrið við, og björgunarsveitin í Búðardal mættu á svæðið og studdu við það með staurum. Lífffræðingar með sérþekkingu á hvölum mættu á svæðið og var dýrið skorðað þannig að blástursopið héldist fyrir ofan vatnsborðið.


Bíða flóðs
Í kvöld verður gerð tilraun til þess að fleyta dýrinu út fjörðinn, undir brúna og á auðan sjó. Segli hefur verið komið undir háhyrningnum og flotbelgir festir sitthvorum megin við hann. Þegar flæðir að um sjöleitið verður gerð tilraun til að fleyta dýrinu út fjörðinn.
Hér að neðan má sjá myndband af undirbúningi björgunaraðgerða.