Innlent

Blæs á gagn­rýni á efnis­tök heimildar­myndar um hrunið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Margrét segir að það hafi verið sér sársaukalaust að taka Þórð Snæ út af kreditlista myndarinnar sem einn af ráðgjöfum.
Margrét segir að það hafi verið sér sársaukalaust að taka Þórð Snæ út af kreditlista myndarinnar sem einn af ráðgjöfum.

Efnis­tök heimildar­myndar um banka­hrunið, Bar­áttan um Ís­land, hafa verið harð­lega gagn­rýnd af fólki sem kom að gerð myndarinnar á fyrri stigum fram­leiðslu. Leik­stjóri myndarinnar og upp­runa­legur fram­leiðandi segir að mark­miðið hafi alltaf verið að beina sjónum að banka­fólki sem hafi staðið í stafni þegar hrunið varð sem og að eftir­málum þess.

Meðal þeirra sem greina frá sínu sjónarhorni á Hrunið í heimildarmyndinni eru Jón Ásgeir Jóhannesson, sem átti stóran hlut í Glitni fyrir hrunið, og Lárus Welding sem gegndi starfi bankastjóra. Glitnir var þjóðnýttur af ríkinu í aðdraganda hrunsins. Þeir Jón Ásgeir og Lárus voru meðal þeirra sem ákærðir voru í fjölmörgum hrunmálum. Jón Ásgeir var á endanum sýknaður en Lárus hlaut fimm ára skilorðsbundinn fangelsisdóm.

„Það var alltaf ætlunin að setja þessa menn í stólinn og biðja þá um að segja sína sögu. Það á ekki að koma neinum á ó­vart sem hefur eitt­hvað þekkt til þessa verks,“ segir Margrét Jónas­dóttir, leik­stjóri myndarinnar og aðstoðardagskrárstjóri Ríkisútvarpsins í sam­tali við Vísi.

Furða sig á efnis­tökum

Samstöðin greindi frá því í gær að efnis­tök í myndinni, sem sýnd var í Ríkis­út­varpinu í vikunni í til­efni af fimm­tán ára af­mæli banka­hrunsins 2008, hafi valdið furðu meðal þeirra sem veittu ráðgjöf á upphafsstigum heimildarmyndargerðarinnar..

Samstöðin segir að Svíinn Bos­se Lindquist, sem var upp­runa­lega var ráðinn sem leik­stjóri myndarinnar, hafi sagt sig frá verkinu árið 2020. Það hafi hann gert þar sem hann hafi ekki verið sáttur við það hvert SagaFilm vildi fara með söguna. Þá hafi hann ekki einu sinni vitað af því að það ætti að sýna myndina.

Þórður Snær Júlíus­son, rit­stjóri Heimildarinnar, er jafn­framt skráður sem ráð­gjafi við gerð myndarinnar. Hann staðfestir við Vísi að hann hafi farið fram á að nafn hans verði afmáð úr kreditlista myndarinnar og öllu efni tengt henni. Hann segir myndina í engu sam­ræmi við þá ráð­gjöf sem hann hafi veitt. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Þá hefur Vísir heimildir fyrir því að Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur, hafi einnig beðið um að nafn sitt yrði tekið af kreditlista myndarinnar vegna ráðgjafar hans í upphafi.

Segist hafa verið ósammála sænska leikstjóranum

Margrét segir að hún hafi upp­haf­lega verið beðin um að fram­leiða mynd um hrunið á Ís­landi af er­lendum aðila. Hún hafi á­kveðið að taka þeirri á­skorun sem fram­leiðandi. Síðan hafi Bos­se Lindquist verið ráðinn sem leik­stjóri.

Þetta hafi verið 2018, löngu áður en Margrét hafi tekið til starfa hjá RÚV sem að­stoðar­dag­skrár­stjóri, en það var árið 2022. Hún segir að síðan hafi heims­far­aldurinn haft mikil á­hrif á fram­leiðslu myndarinnar sem hafi hafist fyrir al­vöru undir lok ársins 2019.

„Heims­far­aldurinn stöðvaði okkur eftir að við vorum búin að taka nokkur við­töl. Lindquist hafði mikinn á­huga á að­draganda hrunsins en ég hafði sam­þykkt að gera mynd um eftir­mála þess.“

Einn þeirra sem rætt er við í myndinni er Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis.Vísir/Vilhelm

Þá segir Margrét að fjár­magn hafi ein­fald­lega ekki verið til staðar til þess að fara í þá djúp­rann­sókn sem þurft hefði til til þess að gera mynd líkt og sænski leik­stjórinn hafi viljað. Sömu­leiðis segist Margrét skilja þá sem gagn­rýni að ekki hafi verið fjallað um að­stæður venju­legs fólks sem tapað hafi fjár­munum í hruninu.

„En það var aldrei mark­miðið með þessari mynd. Það hafa aðrir fjallað um venju­legt fólk í sínum myndum og mér fannst það bara ekki vera þessi saga. Ég taldi mig hafa að­gang að fólki sem hafði ekki tjáð sig áður, sem ekki hefur sest niður í ró­leg­heitum og sagt sína sögu án þess að vera í kast­ljósinu,“ segir Margrét.

„Auð­vitað hef ég fulla sam­úð með því fólki en það var bara ekki mark­mið verksins. Það stendur í upp­hafi myndarinnar að þetta sé mynd um þá sem stóðu í fram­línunni í banka­hruninu og í eftir­málum og þar reyndi ég að gefa sak­sóknara, sér­stökum sak­sóknara og að­gerðar­sinnum orðið en svo var auð­vitað bara fullt af fólki sem vildi ekki tjá sig.“

Sárs­auka­laust að fjar­læga nafn Þórðar

Margrét segist hafa fengið Þórð Snæ, rit­stjóra Heimildarinnar, sem ráð­gjafa vegna yfir­grips­mikillar þekkingar hans á hruninu. Hún segir það hafa verið sér að meina lausu að fjar­lægja nafn hans sem ráð­gjafa.

„Í ráð­gjafa­hlut­verkinu felst ráð­gjöf. Hann ber ekki á­byrgð á inni­haldi myndarinnar. Maður er með alls­kyns ráð­gjafa í ýmsum verkum en þeir eru ekki á­byrgir á endanum. Ég er búin að fjar­læga nafnið hans og það var alveg sárs­auka­laust af minni hálfu.“

Þess er getið í um­fjöllun Sam­stöðvarinnar að sænski leik­stjórinn hafi tekið löng við­töl við Guð­rúnu John­sen, lektor við við­skipta­fræði­deild HÍ, sem einna fyrst hafi gagn­rýnt rekstur bankanna í að­draganda hrunsins. Margrét segir að þau hafi ekki verið í myndinni þar sem Guð­rún hafi farið fram á það eftir að ljóst var að Lindquist væri ekki lengur leik­stjóri.

„Við tókum fleiri við­töl við aðila sem ekki komust að í myndinni. Við komum bara ekki öllum fyrir. Það er ó­mögu­legt að gera þeim öllum skil í einni mynd,“ segir Margrét.

„Þetta átti að vera þessi saga sem aldrei hefur verið sögð. Hún var kannski ekki alveg sú mynd af því að ég náði ekki trausti allra banka­mannanna, en ég stend við hana.“

Hvarf um stund af vefnum 

Þess er jafnframt getið í umfjöllun Samstöðvarinnar að myndin sé ekki lengur aðgengileg á spilara RÚV þrátt fyrir að tekið sé fram að hún sé aðgengileg á Íslandi til 8. nóvember. 

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir í samtali við Vísi að verið sé að klippa hlutana tvo saman. Myndin er nú aftur aðgengileg á vefnum.

„Það horfir til betri vegar. Það var einfaldlega verið að setja hana saman í eina mynd. Þannig verður hún presenteruð og sýnd annars staðar. Hún verður svo aðgengileg á spilaranum innan skamms.“

Frétt uppfærð með upplýsingum um tímabundið brotthvarf myndarinnar af vef RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×