Í fréttum Stöðvar tvö í gær var rætt við Adrian sem er sonur Mareks Zeon Wisniewski sem lést í eldsvoðanum á Funahöfða á mánudag. Marek bjó í herberginu þar sem eldurinn kviknaði og var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús en lést á gjörgæsludeild.
Adrian sagði aðstæður föður síns í húsnæðinu afar slæmar en húsnæðið er ekki skráð sem íbúðarhúsnæði og er því ósamþykkt sem slíkt. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur þó greint frá því að úttekt hafi verið gerð á húsnæðinu í apríl.
Í kjölfar þeirrar úttektar voru gerðar nokkrar athugasemdir og tækifæri gefin til úrbóta. Búið var að bæta úr öllum atriðum nema einu sem var gefinn aukinn frestur á, sem varðar brunastiga af annarri hæð. Bruninn á mánudag kom upp á fyrstu hæð hússins svo ekki reyndi á brunastigann í því tilfelli.
Fjöldi fólks setti sig í samband við Adrian í kjölfar viðtalsins í gær og bauð fram aðstoð sína til að standa straum af útfararkostnaði og segist Adrian afar þakklátur. Efling og eigandi húsnæðisins séu meðal þeirra og að þau muni sjá um kostnaðinn.
„Ég er mjög glaður og fullur aðdáunar yfir því hversu margir settu sig í samband við mig með ýmsum leiðum til að aðstoða,“ segir Adrian.
Hann bætir við að hann sé nú á leiðinni til sýslumanns til að ganga frá ýmsum pappírum í tengslum við andlát föður síns.