Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, í samtali við Vísi. Hann segist eftir sem áður ekki geta tjáð sig nánar um grunaða aðild þeirra handteknu að árásinni.
Þegar rætt var við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld höfðu þrír verið handteknir og því hafa fjórir bæst í hópinn frá klukkan 19 í kvöld.
Grímur segir að lögreglan hafi beitt „gamaldags lögregluvinnu“ við að það komast á snoðir um það hverjir voru viðriðnir árásina, upplýsinga hafi verið aflað með ýmsum hætti og þær greindar.
Þá segir hann að þeir grunuðu hafi ekki verið yfirheyrðir. Það verði látið bíða morguns.
Líkt og greint hefur verið frá í dag særðist einn í skotárásinni en hann særðist ekki alvarlega. Hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Þá hafnaði skot í rúðu íbúðar fjölskyldu sem tengist málinu ekki. Íbúar í fjölbýlishúsinu hafa sagst vera í áfalli eftir árásina.
Fréttin var uppfærð klukkan 23:30.