Hviður yfir 200 kílómetrum á klukkustund mældust við strönd Frakklands en ofsaveðrið hefur valdið umtalsverðu tjóni á Suður-Englandi, Belgíu, Hollandi og Þýskalandi, og að auki við strendur Spánar og Portúgals þar sem löndin liggja að Atlantshafinu. Rafmagnlaust hefur verið víða og verulegar truflanir orðið á samgöngum.
Mikil úrkoma hefur fylgt í kjölfarið og hefur Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, til að mynda lýst yfir neyðarástandi á stórum svæðum Toskana héraðs vegna flóða. Víða á Englandi eru í gildi gular viðvaranir vegna óveðursins og mikillar rigningarspár: skólar hafa verið lokaðir og fólki ráðlagt að vera sem minnst á ferðinni. Varað er við flóðum og mikilli ölduhæð við strendur landsins, eftir því sem fram kemur í erlendum miðlum.