Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á miðlægri deild lögreglu í samtali við Vísi. Sjö voru handteknir í gær í tengslum við rannsókn og því ljóst að einum hefur verið sleppt. Lögregla hefur sagst telja sig hafa náð utan um málið og leitar ekki fleiri manna. Fyrrnefndir sjö voru yfirheyrðir í morgun.
Einstaklingarnir verða leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur nú síðdegis. Það kemur í hlut héraðsdómara að meta hvort orðið verði við kröfu lögreglu um vikulangt varðhald.
Fram hefur komið að nokkrum skotum var hleypt af við Silfrutjörn um fimmleytið á fimmtudagsmorgun. Eitt skotið hæfði karlmann sem fluttur var á Landspítala en var útskrifaður í gær særður á fæti. Annar hlaut skrámu sökum byssukúlu.
Þá hafnaði ein byssukúla í kyrrstæðum bíl á meðan önnur braut glugga í nærliggjandi fjölbýlishúsi. Kúlan hafnaði í vegg inni í íbúð hjá fjölskyldu. Tvær stúlkur, fjögurra ára og átta ára, sváfu í rúmum sínum hinum megin við vegginn.