„Þetta er fyrsti áfangi, við höfum gert ráð fyrir fimm eða sex vélum. Þessar þjóna í raun grunnálagi í byrjun. En þegar fram líða stundir og það kemur meiri hitaþörf í bæinn þá þarf að fjölga vélum,“ segir Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna.
Varaaflsvélarnar tvær sem bera heitin Hrísey og Grímsey, komu í dag til Grindavíkur. Þær eru í eigu Landsnets en HS Veitur sá um uppsetningu.
Egill segir fólk ekki geta hagað lífi sínu eins og venjulega þegar hiti er keyrður á varaafli, því þar sem dreifikerfi séu ekki byggð fyrir rafkyndingu sé mjög takmarkaður möguleiki til upphitunar.
„Þannig álagið verður allt of mikið fyrir það. Það þarf að takmarka hitaþörf í hverju húsi fyrir sig í tvö til þrjú kílóvött til að við getum lifað þetta af, þar að segja dreifikerfið.“

Fram kom á upplýsingafundi Almannavarna í dag að það hvort hiti sé í íbúðarhúsum skeri úr um hvort þau séu íbúðarhæf eða ekki. Svartasta sviðsmynd geti verið mjög erfið þegar það varðar. Þó það komi til eldgoss gæti þó komið til þess að það reyni ekkert á hitaveitu. Þá gætu einstaka lagnir dottið út eða hitaveita af hluta til.