Fótbolti

Segir að­eins tíma­spurs­mál hve­nær kona tekur við karlaliði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sarina Wiegman hefur bæði gert Holland og England að Evrópumeisturum.
Sarina Wiegman hefur bæði gert Holland og England að Evrópumeisturum. getty/Naomi Baker

Sarina Wiegman, þjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta, segir aðeins tímaspursmál hvenær kona tekur við atvinnumannaliði í karlaboltanum.

„Ég held að það gerist. Ég veit ekki hversu langan tíma það tekur en það verður gott. Það er aðeins tímaspursmál hvenær þetta gerist og það kemur með þróun leiksins,“ sagði Wiegman við BBC.

„Konur eru alls staðar, þjóðhöfðingjar og háttsettar í viðskiptum. En jafnvægið milli karla og kvenna í hæstu stöðum ætti að vera aðeins betra. Í fótbolta erum við ekki vön að konur þjálfi karla á hæsta getustigi.“

Wiegman hefur náð framúrskarandi árangri með enska kvennalandsliðið og gerði það að Evrópumeisturum á EM í fyrra. Hún hefur meðal annars verið orðuð við karlalandslið Englands en kveðst ánægð í kvennaboltanum.

„Hugurinn er ekki í karlaboltanum heldur kvennaboltanum og hvað við getum gert,“ sagði Wiegman.

„Ég elska starfið mitt hjá enska knattspyrnusambandinu og landsliðinu. Þetta er hæsta stig. Ég vinn með heimsklassa leikmönnum, við bestu aðstæður og stuðning. Ég nýt þess í botn.“

Wiegman segir að leggja þurfi meira púður og fjármagn í kvennaboltann svo hann nálgist karlaboltann. Þá þurfi að skapa tækifæri fyrir konur í þjálfun til að fjölga þeim, til dæmis í ensku úrvalsdeildinni kvennamegin. Aðeins fimm af tólf liðum þar eru með kvenþjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×