Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá slökkviliðinu á samfélagsmiðlinum Facebook. Þar segir að stúlkan hafi fest fingurna á sér inni í lukt.
Mamma hennar hafði reynt allt en ekkert gekk að losa hana. Slökkviliðið endaði á því að nota kúbein á luktina. Það gekk og varð barninu ekki meint af þó luktin hafi brotnað.
Bíða í þrjátíu mínútur fyrir utan slysadeild
Slökkviliðið fór í sjö útköll síðastliðinn sólarhring, meðal annars vegna vatnstjóns, umferðarslysa, viðvörunarkerfis sem gaf falsboð og elds í þaki sem reyndist minniháttar.
Alls var farið í 155 sjúkraflutninga og segir slökkvilið allt hafa verið á öðrum endanum. Á tímabili í gær hafi þurft að bíða með sjúklinga í bílnum fyrir utan slysadeild í þrjátíu mínútur áður en hægt var að taka á móti þeim á deildinni.