Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu en mbl.is greindi fyrst frá.
Að sögn Sigurjóns barst tilkynning um eldinn um níuleytið og voru tveir slökkvibílar sendir á vettvang auk eins tankbíls. Í kringum rútuna er smá trjálundur en þó engin stórhætta á að eldurinn dreifði úr sér. Þrátt fyrir það voru tveir bílar sendir sökum vatnsmagnsins sem þarf til að slökkva í slíkum rútum.
„Þeir eru búnir að slökkva eldinn og eru í glóðavinnu og lokafrágangi,“ sagði Sigurjón þegar blaðamaður hafði samband korter í tíu.