Formenn landsambanda verkalýðsfélaga og stærstu félaganna á almenna vinnumarkaðnum funduðu í gær þar sem ekki tókst að ná samstöðu allra innan Alþýðusambandsins um stefnuna í komandi kjarasamningum. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að engu að síður væri breiðfylking að myndast.
„Við erum, hvað á ég að segja, 95 prósent af Alþýðusambandinu, eða félögum innan Alþýðusambandsins sem ætlum að halda þessari vinnu áfram. Það er mun stærri og öflugri hópur en var til dæmis á bakvið lífskjarasamninginn 2019,“ segir Ragnar Þór.

Þannig ætli fjölmennustu félögin VR og Efling, ásamt Landsambandi íslenskra verslunarmanna, Starfsgreinasambandinu og Samiðn að halda hópinn. Einhver félög innan samtaka iðnaðarmanna muni væntanega einnig slást í för. Komandi kjarasamningar til nokkurra ára snúist ekki um krónutölur.
„Þetta snýst í rauninni um að gera kjarasamning sem vinnur niður verðbólgu og vaxtastigið. Þar eru langmestu hagsmunirnir. Síðan fjöldamörg önnur mál sem snúa að kerfisbreytingum, til dæmis varðandi húsnæðislánamarkaðinn. Síðan tilfærslukerfin. Þar eru stóru tölurnar og þar er miklu meira undir en krónur eða þúsundkallar til eða frá í launahækkanir,“ segir formaður VR.

Fyrst þurfi að ná samningum við Samtök atvinnulífsins en síðan verði stjórnvöld og Seðlabanki að koma að málum.
„Ef við náum nægilega stórum hópi til að vinna að þessu markmiði þá gætum við mögulega gert tímamótasamning í janúar,“ segir Ragnar Þór. Misjöfn sjónarmið væru vissulega uppi innan verkalýðshreyfingarinnar um krónutöluhækkanir eða blandaða leið. En það væri miklu meira undir í komandi kjarasamningum sem skipti miklu meira máli.
„Og ef við getum náð árangri bæði varðandi tilfærslukerfin, vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfin, barnabætur, húsnæðismarkaðinn og sömuleiðis húsnæðislánakerfið okkar. Miklu fleiri atriði sem við erum að ræða sem eru risastór hagsmunamál almennings, þá á launaliðurinn ekki að vera ágreiningsefni eins og hann er og hefur verið,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.