Viðskipti innlent

Ís­lenskt fyrir­tæki á lista Financial Times yfir fram­úr­skarandi fyrir­tæki

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Treble Technologies var stofnað árið 2020. 
Treble Technologies var stofnað árið 2020.  Treble

Íslenska tæknifyrirtækið Treble Technologies, sem sérhæfir sig í hljóðhermun, er á lista Financial Times yfir þau fyrirtæki sem þóttu skara fram úr á árinu. 

Treble hlaut tilnefningu í flokki fyrirtækja sem þjónusta framleiðslu- og byggingariðnað en tilnefnt var í níu flokkum. 

Fjögur fyrirtæki hlutu tilnefningu í flokki þjónustu við framleiðslu- og byggingariðnað og norski viðarframleiðandinn Kebony bar sigur út býtum. 

Tilnefningar og sigurvegara í öllum flokkum má nálgast á síðu Financial Times.

Í ár skoðaði Financial Times sérstaklega hvernig fyrirtæki í Evrópu hafa tekið áskorunum og tækifærum sem byltingkenndar tækninýjungar hafa í för með sér, líkt og gervigreind, til að leysa raunveruleg vandamál og skapa jákvæðar breytingar. 

Listi tilnefndra fyrirtækja var settur saman af hópi sérfræðinga frá Finanicial Times, samstarfsaðilum og óháðum dómurum úr tækniiðnaðinum, háskólum og hinu opinbera. Í ár skoðaði hópurinn hvernig fyrirtæki í Evrópu hafa tekið áskorunum og tækifærum sem byltingkenndar tækninýjungar hafa í för með sér til að mynda gervigreind. 

„Byltingarkennd tækni Treble hefur notagildi víða, m.a. við hljóðhönnun bygginga, bíla, hátalara og til sköpunar á hinum ýmsu sýndarupplifunum. Með tækni Treble er hægt að herma hvernig hljómtækjabúnaður á borð við sjónvarp eða hátalarar munu hljóma áður en framleiðsla hefst,“ segir í fréttatilkynningu frá Treble. 

„Að auki er tækni Treble notuð til þess að þjálfa gervigreind sem er í nýrri kynslóð hátalara, í fjarfundarbúnaði og í snjallhátölurum. Treble vinnur með mörgum af stærstu tæknifyrirtækjum heims, en fjögur af tíu stærstu tæknifyrirtækjum heims eru nú þegar að nýta tækni Treble,“ segir jafnframt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×