Körfubolti

Valinn sá besti í fyrstu vikunni sinni eftir langt leikbann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ja Morant hefur verið frábær síðan að hann kom til baka og Memphis Grizzlies er taplaust með hann innanborðs.
Ja Morant hefur verið frábær síðan að hann kom til baka og Memphis Grizzlies er taplaust með hann innanborðs. Getty/Sean Gardner

Bandaríski körfuboltamaðurinn Ja Morant hefur snúið til baka í NBA deildina með látum eftir að hafa tekið út 25 leikja bann í upphafi leiktíðar.

Hann var í gær valinn besti leikmaður vikunnar í Vesturdeildinni en Memphis Grizzlies liðið hefur unnið fjóra leiki í röð eftir endurkomu hans.

Morant hélt upp á verðlaunin með því að skora 31 stig í sigri á New Orleans Pelicans í nótt.

Hann var með 28,0 stig, 9,0 stoðsendingar og 5,7 fráköst að meðaltali í fyrstu þremur leikjum sínum sem unnust allir en hann var kosinn sá besti í vikunni fyrir frammistöðu sína í þessum þremur leikjum.

Morant skorað 34 stig og sigurkörfuna í fyrsta leiknum á móti Pelicans, var síðan með 20 stig og 8 stoðsendingar í sigri á Indiana Pacers og loks var hann með 30 stig og 11 stoðsendingar í sigri á Atlanta.

Morant var dæmdur í þetta langa leikbann eftir að hafa sést veifa byssu í Instagram myndbandi í maí aðeins tveimur mánuðum eftir að hafa hafa fengið átta leikja bann fyrir samskonar hegðun í mars.

Grizzlies var í miklu basli án síns besta manns og vann aðeins 6 af fyrstu 25 leikjum sínum.

Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers var valinn besti leikmaður vikunnar í Austurdeildinni en hann var með 40,7 stig, 12,0 fráköst og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×