Fótbolti

86 milljón punda væng­maðurinn sem skorar hvorki né leggur upp

Siggeir Ævarsson skrifar
Antony hefur þurft að svekkja sig á frammistöðu sinni ansi oft í vetur
Antony hefur þurft að svekkja sig á frammistöðu sinni ansi oft í vetur Vísir/Getty

Sóknarvandræði Manchester United virðast engan enda ætla að taka en liðið virkaði mjög bitlaust fram á við í tapleik gegn Nottingham Forest í gær. Sá leikmaður sem hefur verið hvað harðast gagnrýndur er Antony en hann hefur hvorki skorað né lagt upp mark á tímabilinu.

Antony var einn af vonarstjörnum Erik ten Hag, sem splæsti 86 milljónum punda í vængmanninn brasilíska en Antony hafði áður leikið undir stjórn ten Hag hjá Ajax. Á sínu fyrsta tímabili með United skoraði Antony fjögur mörk í ensku úrvalsdeildinni og lagði upp tvö í 25 leikjum.

Einhverjir stuðningsmenn United vonuðust eflaust eftir að hann myndi hrökkva í gang í vetur eftir að hafa fengið að aðlagast deildinni en sú hefur heldur betur ekki verið raunin. Eftir að hafa tekið þátt í 16 deildarleikjum það sem af er tímabili talar tölfræðin sínu máli: Núll mörk, núll stoðsendingar.

Þeir Gary Neville og Jamie Redknapp gerðu kaupstefnu ten Hag að umtalsefni eftir leik United í gær þar sem Neville sagðist hreinlega hafa þungar áhyggjur af þeim ákvörðunum sem ten Hag hefur tekið. Háum upphæðum hafi verið eytt í menn sem eigi að skora mörk en árangurinn sé nánast enginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×