Ástæðan eru þær hörmungar sem nú eiga sér stað á Gasa. Svipuð umræða hefur átt sér stað hér heima á Íslandi og hefur FÁSES, félag áhugafólks um Eurovision, meðal annars skorað á RÚV að sniðganga keppnina. Útvarpsstjóri hefur sagt hlutverk RÚV ekki felast í því að taka pólitíska afstöðu.
Í umfjöllun finnska miðilsins HBL, kemur fram að í dag verði opinberað hverjir stíga á svið í UMK, söngvakeppni þeirra Finna. Finnar áttu góðu gengi að fagna í keppninni í fyrra, en fulltrúi þeirra Käärijä lenti í öðru sæti á eftir hinni sænsku Loreen.
Finnski miðillinn HBL segir þrýsting á finnska ríkisútvarpið Yle um að bregðast við þátttöku Ísraela í keppninni í ár. 1300 tónlistarmenn og fleiri til úr finnska tónlistarbransanum hafa skorað á Yle að krefjast þess að Ísraelum verði vikið úr keppni.
Fari Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) ekki að kröfum Finna leggur tónlistarfólkið til að Finnar sniðgangi Eurovision í ár með öllu. Þess er getið að um sé að ræða tónlistarfólk, umboðsmenn, tæknifólk og ýmsa aðra sem starfi í tónlistarbransanum í Finnlandi.