Leit að manni sem talinn er hafa fallið ofan í sprungu í Grindavík á miðvikudag hófst aftur klukkan tíu í morgun. Leit hafði verið frestað seint í gærkvöldi eftir að ástandið í sprungunni var metið ótryggt. Það hefur reynst björgunarfólki erfitt að starfa við sprunguna, meðal annars vegna mikillar rigningar.
Maðurinn hafði verið að fylla í sprungu við hús í Vesturhópi í Grindavík þegar hann er talinn hafa fallið ofan í hana.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir aðgerðir ganga ágætlega.
„Það gengur ágætlega en við erum ekki búin að finna manninn,“ segir Úlfar.
Eruð þið bjartsýn á að finna manninn í dag?
„Við erum alltaf bjartsýn. Hæfilega bjartsýn.“
Búið er að fresta öllum öðrum framkvæmdum innan bæjarins.
„Lagfæringar, það að fylla í sprungur í bænum, því hefur öllu verið slegið á frest fram yfir helgi. Hugmyndin var að funda með verktökum næstkomandi þriðjudag,“ segir Úlfar.
Er óhætt fyrir íbúana að vera í bænum?
„Staðan er óbreytt að svo stöddu.“
Er það til skoðunar að rýma bæinn á ný?
„Við erum alltaf að endurmeta stöðuna.“
Fjöldi fólks gistir í bænum þessa dagana.
„Mér sýnist það hafa verið gist í rúmlega 90 húsum í nótt. Þetta hefur verið rokkandi síðustu daga, frá 40-50 íbúðum upp í þessa tölu, jafnvel aðeins hærra,“ segir Úlfar.
Úlfar segir framkvæmdirnar hafa verið á vegum Náttúruhamfaratryggingar en forstjóri stofnunarinnar sagði í stuttu samtali við fréttastofu fyrr í dag að það væri ekki tímabært fyrir stofnunina að tjá sig um málið.