Það voru heimamenn í Sheffield United sem voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en gestirnir fengu einnig sín færi og Maxwel Cornet kom West Ham yfir með hnitmiðuðu skoti á 28. mínútu leiksins.
Ben Brereton Diaz jafnaði hins vegar metin fyrir heimamenn þegar hann kom boltanum í netið af miklu harðfylgi á 44. mínútu og staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Það var svo ekki fyrr en að rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka að dró til tíðinda á ný. Danny Ings fékk þá boltann og gerði vel í að koma sér inn á teig þar sem hann var svo tekinn niður og vítaspyrna dæmd. James Ward-Prowse fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.
Varamaðurinn Rhian Brewster gerði svo að lokum lítið úr möguleikum heimamanna á því að stela stigi úr leiknum þegar hann fékk að líta beint rautt spjald í uppbótartíma fyrir groddalega tæklingu á Emerson. Vladimir Coufal sá reyndar til þess að jafnt var í liðunum seinustu sekúndur leiksins þegar hann nældi sér í sitt annað gula spjald fyrir klaufalegt brot á sjöundu mínútu uppbótartíma, en hann hafði fengið fyrra gula spjaldið fyrir kjaftbrúk eftir brot Brewster á Emerson.
Upp úr aukaspyrnunni komu heimamenn boltanum inn á teig þar sem Alphonse Areola fór í úthlaup, braut á Oliver McBurnie og vítaspyrna dæmd. Areola meiddist í úthlaupinu og Lukasz Fabianski kom inn á til að freista þess að verja spyrnuna á tólftu mínútu uppbótartíma.
McBurnie fór sjálfur á puntkinn og tryggði heimamönnum dramatískt stig.
MCBURNIEEEEEEE!!!!!! pic.twitter.com/CzbWfRKcmc
— Sheffield United (@SheffieldUnited) January 21, 2024
Niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli í ótrúlegum leik. West Ham situr í sjötta sæti deildarinnar með 35 stig eftir 21 leik. Sheffield United situr hins vegar sem fastast á botninum með tíu stig.