Þetta segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir jafnframt að hlaupórói sem mældist á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli hafi líka lækkað og sé nú kominn niður í eðlilegt horf. Frá því á mánudaginn í síðustu viku hafi 21 jarðskjálfti mælst í Grímsvötnum, þar af tveir skjálftar yfir tveimur að stærð.
Í Grímsvatnahlaupinu 2021 hafi myndast sigketill, sem sé sprungin dæld á yfirborði jökulsins, suðaustur af Grímsfjalli. Ketillinn sé staðsettur nærri farvegi hlaupanna undir jöklinum.
Starfsmenn Veðurstofunnar, sem voru á ferð á Vatnajökli í síðustu viku að sinna mælarekstri, hafi séð móta fyrir sigkatli á svipuðum stað. Við skoðun á gervitunglamyndum frá því í gær, 21. Janúar, sjáist tveir sigkatlar suðaustur af Grímsfjalli. Annar þeirra sé sá sem myndaðist í hlaupinu 2021 en hinn gæti hafa myndast í nýafstöðnu hlaupi eða verið eldri ketill sem hefur virkjast aftur.
Sigkatlarnir séu nærri ferðaleið austur af Grímsfjalli og æskilegt sé að forðast ketillinn á ferð um þær slóðir.