Á fasteignavef Vísis kemur fram að húsið skiptist í kjallara, tvær hæðir og risloft. Það var teiknað og byggt árið 1918 af Jens Eyjólfssyni fyrir Margréti Zoega. Þá kemur fram að miklar endurbætur hafi farið fram á húsinu á síðustu árum.
Einar Benediktsson skáld er meðal fyrri íbúa, en hann bjó í húsinu með eiginkonu sinni Valgerði Zoega og áðurnefndri Margréti, sem var tengdamóðir hans.
Í kjallara hússins er að finna gestasnyrtingu, eldhús, stofur (já, í fleirtölu), baðherbergi, þrjú svefnherbergi og vinnurými. Frá garði er hurð inn í geymslu. Á fyrstu hæðinni er síðan að finna aðra gestasnyrtingu, tvær samliggjandi stofur með arni, eldhús, borðstofu og dagstofu, hvaðan hægt er er að ganga út á svalir.
Á annarri hæðinni eru fjögur svefnherbergi, baðherbergi og þvottahús. Frá einu svefnherbergjanna er hægt að ganga út á þaksvalir sem snúa í suður og austur. Þá er einnig risloft í húsinu, sem notað hefur verið sem geymsla.




