Þetta er í þriðja sinn sem hleypt er inn í bæinn og eins og venjulega er um tvö holl að ræða. Fyrra hollið hefur frá klukkan níu til tólf til að athafna sig en seinna hollið frá tvö til fimm síðdegis. Á heimasíðu Grindavíkurbæjar er að finna nánari upplýsingar um hólfaskiptingu.
Á Facebooksíðu Lögreglunnar á Suðurnesjum segir að færðin á Krýsuvíkurvegi sé góð núna í morgunsárið. Samkvæmt Vegagerðinni hafi snjóruðningstæki farið um veginn í morgun auk þess sem vegurinn hafi verið saltaður. Hlé var gert á aðgerðunum í gær vegna veðurs en spáin í dag er mun skaplegri.