Líkt og fram hefur komið mun leikurinn fara fram í Ungverjalandi þann 21. mars næst komandi. Ákvörðun um leikstað átti að liggja fyrir í desember en sú dróst töluvert á langinn. Ísrael gerði kröfu allt þar til í lok janúar að leikurinn færi fram í heimalandinu.
„Þegar dregið var í umspilsleikinn í nóvember var ekki ljóst hvar Ísrael myndi spila vegna ástandsins sem er náttúrulega alveg hræðilegt á þessum slóðum. Okkar krafa var sú að við myndum aldrei spila við Ísrael í Ísrael,“ segir Jörundur Áki Sveinsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs hjá KSÍ, í samtali við Vísi.

„Það tók smá tíma að fá niðurstöðu í það mál. Ísrael hélt kröfu sinni til streitu en það kom aldrei til greina af okkar hálfu. UEFA steig inn í sem betur fer og niðurstaðan að við spilum í Ungverjalandi.“
Sniðganga ekki komið til umræðu
Í ljósi innrásar Ísraela í Palestínu hefur borið á þeirri kröfu meðal almennings að íslenska liðið mæti ekki til leiks gegn Ísraelum. Samskonar krafa hefur verið gerð á sniðgöngu á söngvakeppninni Eurovision vegna þátttöku Ísraela.
Jörundur Áki segir ljóst að meðan UEFA reki Ísrael ekki úr keppni þýði sniðganga það sama og að gefa Ísraelum sæti í úrslitaleik umspilsins. Það hafi því ekki komið til umræðu að Ísland mæti ekki til leiks.
„Það hefur ekki komið til umræðu að mæta ekki í leikinn. Það er alveg ljóst að meðan UEFA heldur Ísrael inni í þessari keppni sem er enn í gangi og hófst í fyrra þá munum við mæta,“
„Markmiðið er að vinna Ísrael. Við ætlum ekki að gefa þeim auðveldu leiðina í þessu og ætlum okkur í úrslitakeppnina í sumar.“ segir Jörundur Áki.
Leikur Íslands og Ísrael er 21. mars næst komandi. Sigurvegari þess leiks mætir annað hvort Bosníu eða Úkraínu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM sem fram fer í Þýskalandi í sumar.