„Þá eru sömuleiðis fyrirhugaðir fundir með fulltrúum Norðurlandanna sem og Ísrael,“ segir enn fremur.
Ekki liggur fyrir samkvæmt svari ráðuneytisins hversu lengi þau verða úti en ferðin var farin í þeim tilgangi „að sinna áframhaldandi undirbúningi utanríkisráðuneytisins“.
Spurð um reynslu fulltrúanna við slík störf segir í svari utanríkisráðuneytisins að þau hafi „víðtæka reynslu úr utanríkisþjónustunni, af borgaraþjónustumálum sem og reynslu af störfum á mannúðarsvæðum.“
Taka fyrir beiðni sjálfboðaliða um fund
Fram kom í viðtali við Semu Erlu Serdaroglu á Vísi í dag að hún, og aðrir sjálfboðaliðar sem eru staddir í Egyptalandi, hefðu sett sig í samband við ráðuneytið og hefðu áhuga á að komast í samband við þau.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Vísis um málið segir að óformleg beiðni frá sjálfboðaliðunum í Kaíró sé til skoðunar í ráðuneytinu.
Sjálfboðaliðarnir eru í Egyptalandi til að aðstoða fólk sem er komið með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar yfir landamærin. Eftir að fólk er komið yfir landamærin getur það leitað aðstoðar Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar til að komast til Íslands.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu sér félagsmálaráðuneytið alfarið um samskipti við stofnunina.