Subway-deildin í körfubolta er æsispennandi og fer að styttast í lok deildakeppninnar. Nokkur lið gera tilkall til Íslandsmeistaratitils í vor og í þættinum Subway Körfuboltakvöld í gær fóru þeir Stefán Árni, Sævar og Helgi Már yfir stöðuna í deildinni og framhaldið á næstu vikum.
„Hver eru fjögur sterkustu liðin til að verða Íslandsmeistari í vor?“ spurði Stefán Árni og bað þá félaga um að raða upp fjórum bestu liðunum í deildinni eftir því hvaða lið væri líklegast til að verða meistari miðað við gang mála.
„Keflavík númer fjögur,“ byrjaði Keflvíkingurinn Sævar á að segja.
„Byrja þeir,“ heyrðist þá í Helga Má.
Þeir Sævar og Helgi voru sammála um hvaða fjögur lið væru sterkust en röðin á þeim var ekki alveg sú sama.
„Valsmenn þurfa að finna einhverja vinkla“
Þá ræddu þeir einnig um landsleikjapásuna sem framundan er en næst verður leikið í Subway-deildinni þann 7. mars. Það er því ansi langt frí framundan og sum lið eflaust fegin á meðan önnur lið hefðu viljað ná betri takti í sinn leik.
„Augljósu liðin finnst mér vera Tindastóll. Aðeins að núllstilla sig og koma Keyshawn (Woods) aðeins inn í hlutina. Svo er það Valur og Stjarnan. Valsmenn þurfa kannski ekki að endurstilla sig en þeir þurfa að finna einhverja vinkla á því sem þeir eru að gera núna sem geta virkað betur í fjarveru Josh (Jefferson) og þegar Justas (Tamulis) kemur inn í það hlutverk aðeins meira.“
Alla umræðu þeirra Stefáns Árna, Sævars og Helga Más má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en þá ræddu þeir áhrif landsleikjahlésins.