Enski boltinn

Liverpool fólk svitnar: Xabi Alonso efstur á óska­lista Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso fagnar hér frábærum sigri Bayer Leverkusen á Bayern München á dögunum.
Xabi Alonso fagnar hér frábærum sigri Bayer Leverkusen á Bayern München á dögunum. Getty/Jörg Schüler

Liverpool fær væntanlega mikla samkeppni um Xabi Alonso ef marka má nýjustu fréttir frá Bæjaralandi.

Thomas Tuchel mun hætta þjálfun Bayern München eftir tímabilið og þar með er Bayern í þjálfaraleit eins og bæði Liverpool og Barcelona.

Sky Sports segir frá því að Xabi Alonso sé efstur á óskalista Bayern yfir mögulegan þjálfara.

Liverpool hefur mikinn áhuga á því að Xabi taki við Liverpool liðinu af Jürgen Klopp. Stuðningsmennirnir óska sér ekkert annað og það voru sögusagnir um það að viðræður væru á byrjunarstigi.

Xabi er á góðri leið með því að gera Bayer Leverkusen að þýskum meisturum í fyrsta skiptið. Leverkusen vill örugglega halda honum en það er hætt við því að stóru klúbbarnir heilli þennan metnaðarfulla þjálfara.

Xabi þekkir mjög vel til hjá bæði Liverpool og Bayern München.

Xabi spilaði með Liverpool í fimm ár en hann endaði ferilinn hjá Bayern þar sem hann lék frá 2014 til 2017.

Eins og staðan er í dag eru Liverpool og Bayern á ólíkum stað. Klopp er kominn vel af stað með endurnýjun Liverpool liðsins og skilur því við liðið á góðum stað.

Hjá Bayern þarf hins vegar að taka mikið til í leikmannahópnum og taka inn fullt af ferskum fótum. Gengi liðsins hefur verið skelfilegt og það eru margir leikmenn sem eru á lokasprettinum á þessu getustigi.

Það verður fróðlegt að sjá hvort verkefnið heilli Spánverjann meira en það er ljóst að hann getur valið á milli starfa. Fyrstu fréttir frá Bayern eru að þeir séu bjartsýnir á að fá hann í starfið hjá sér.

Liverpool fólk svitnar því örugglega aðeins yfir fréttunum frá Þýskalandi enda himin og haf á milli plans A og plans B í þjálfaraleit Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×