Greint var frá því fyrr í vikunni að erfiðlega hefði gengið að finna stað fyrir athöfnina því að sumir hafi neitað þegar þeir komust að því fyrir hvern athöfnin var.
Alexei Navalní lést í fangelsi í Síberíu fyrr í þessum mánuði. Um árabil var hann helsti andstæðingur forseta Rússlands, Vladimír Pútín. Eiginkona Navalní hefur kennt Pútín um dauða hans. Greint var frá því í gær að samkomulag um fangaskipti hafi verið á lokametrunum og hann nálægt því að verða frjáls maður þegar hann lést þann 16. febrúar.
Lík Navalní var afhent móður hans í upphafi þessarar viku en móðir hans, Ljúdmíla Navalní, sagði í ávarpi eftir andlát hans að rússnesk yfirvöld hefðu ætlað að grafa hann í kyrrþey í kirkjugarði fanganýlendunnar þar sem hann lést. Eftir þrýsting frá fjölskyldunni afhentu rússnesk yfirvöld móður hans lík hans.
Í umfjöllun BBC um útför Navalní kemur fram að fjölskylda hans hafi upprunalega viljað halda útförina á morgun, þann 29. febrúar, en að erfiðlega hafi gengið að fá starfsmenn til að grafa gröfina því að Pútín mun á morgun halda sína árlega ræðu í rússneska þinginu á morgun.
Ivan Zhdanov, talsmaður sjóðs gegn spillingu í nafni Navalní, sagði á samfélagsmiðlinum X að ríkisstjórnin vissi að enginn myndi vilja hlusta á Pútín sama dag og Navalní er borinn til grafar. Þá hvatti hann fólk til að mæta snemma til að geta kvatt Navalní.