Greint var frá því á mbl.is á laugardag að Rúnar Freyr hafi greitt götu palestínska söngvarans Bashar Murad svo hann gæti löglega tekið þátt í Söngvakeppni Ríkisútvarpsins. Hann hafi ritað undir boðsbréf, sem lagt var inn hjá Útlendingastofnun, til að Bashar fengi framlengingu á vegabréfsáritun til Íslands frá Útlendingastofnun.
„Ég er framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar og Bashar er þar keppandi. Nauðsynlegt er að hann fái vegabréfsáritun hingað til lands til að hann geti tekið þátt í keppninni. Ef hann sigrar keppnina mun hann væntanlega taka þátt í Eurovision í Malmö um miðjan maí og þarf áritun hans að gilda fram yfir þann tíma vegna undirbúningsvinnu,“ skrifar Rúnar Freyr í bréfinu.
Ljósmynd af síðustu blaðsíðu umsóknarinnar birtist á mbl.is þar sem greinilega má sjá undirritun Rúnars Freys og að bréfið hafi verið undirritað 15. febrúar síðastliðinn í Reykjavík.
Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að myndin af gagninu sem birtist á mbl.is sé ekki frá Útlendingastofnun komin.
„Hún er af öðru gagni en því sem lagt var fram hjá stofnuninni. Myndin sýnir frumrit umsóknarinnar og virðist það heftað eða fest með öðrum hætti við aðrar blaðsíður eyðublaðsins. Útlendingastofnun barst hins vegar ekki frumrit umsóknarinnar heldur aðeins óheftað afrit.“