Aidan Flynn hefur gist tvær nætur á Kastali Guesthouse. Gistiheimilinu var lokað í dag í tengslum við umfangsmiklar lögregluaðgerðir sem samkvæmt heimildum fréttastofu snúa að Vy-þrif fyrirtækinu og eigandanum Davíð Viðarssyni sem einnig á Wok On og Pho Víetnam.
Fram kom í tilkynningu lögreglu fyrir stundu að fjölmörg lögregluembætti hefðu sameinað krafta sína í aðgerðum sem hófust í dag og standa enn yfir, allt frá Suðurnesjum og til Norðurlands. Auk Kastala Guesthouse hefur veitingastöðum Wok On og Pho Víetnam verið lokað.
Lögreglan réðst í umfangsmiklar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu í dag. Engar upplýsingar hafa fengist eftir formlegum leiðum en lögregla segir von á tilkynningu. Lögregla rýmdi gistiheimilið í dag og ferðamenn tóku föggur sínar. Á meðan var Aidan Flynn að dást að náttúruperlum Íslands.
„Við vorum að koma úr göngu. Þegar við komum að inngangnum þá beið okkur blátt límband sem við áttum ekki að fjarlæja,“ segir Aidan.

Um er að ræða innsigli á gistiheimilinu sem Davíð hefur rekið undanfarna mánuði. Hann keypti húsnæðið af Hjálpræðishernum fyrir hálfan milljarð árið 2022. Þá stendur á skilaboðum í glugga að fólk sem þurfi að komast í eigur sínar eigi að hafa samband í símanúmerið 112.

Aidan ætlaði að gista þriðju og síðustu nóttina á gistiheimilinu í nótt áður en för verður framhaldið til Kaupmannahafnar. Hann segist reyndar hafa tekið mestu verðmæti með sér í ferðalag dagsins. Á gistiheimilinu er mikið um sameiginleg rými þannig að hann ákvað að skilja ekki mikil verðmæti eftir á svæðinu.
Hann vonast til að komast í föggur sínar sem fyrst.