Í tilkynningu þess efnis frá lögreglu segir að farið sé fram á gæsluvarðhaldið á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Eins og fram hefur komið hafi tilefni aðgerðanna verið rökstuddur grunur um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og grunur um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar, sem fóru fram á höfuðborgarsvæðinu og víðar, hafi staðið yfir í allan gærdag og gengið vel fyrir sig.
Á annað hundrað manns hafi tekið þátt í þeim, þar af um áttatíu starfsmenn lögreglu og nokkur fjöldi starfsfólks stofnana og félagasamtaka sem veittu liðsinni við aðgerðirnar. Samtals hafi húsleit verið framkvæmd á um 25 stöðum.
Við rannsókn málsins hafi verið rætt við töluvert af fólki sem grunsemdir eru um að séu þolendur mansals.